Category: Óflokkað

Pistill frá formanni mótanefndar

Kæru kylfingar

Senn líður að Meistaramóti GSS. Í huga margra kylfinga eru meistaramót klúbbana hápunkturinn á golfsumrinu, og er það svo í mínu tilviki. Hér gefst hinum almenna félagsmanni tækifæri á að prófa golf eins og atvinnumennirnir þekkja það. Fjórir dagar af alvöru keppnisgolfi þar sem hvert högg telur og spennustigið getur orðið hátt. Margir eru þeirrar skoðunar að höggleikur sé hið eina sanna golf. Því til stuðnings nefna menn að margir kylfingar eru góðir í holukeppni en fatast fljótt flugið þegar kemur að höggleik. Standist maður hinsvegar pressuna sem fylgir höggleik, þá er maður að öllum líkindum líka góður í holukeppni. Þegar telja þarf hvert högg fer leikurinn á annað plan. Höggleikur er því frábært tækifæri til að láta reyna á andlegu hliðina og einstakt tækifæri fyrir okkur til að bæta okkur sem kylfinga og jafnvel lækka forgjöf. Ekki má heldur gleyma því að  Meistaramótið er kjörið tækifæri fyrir byrjendur til að skerpa á þeim þáttum leiksins er lúta að reglum, hegðun á golfvellinum og spilamennsku almennt. En að lokum er þetta samt alltaf bara spurning um að hafa gaman og spila golf í góðum félagsskap.

Í ár verður keppt í 6 flokkum í karlaflokki og í 3 í kvennaflokki.

Flokkaskiptingar verða eftirfarandi:

Karlar
Forgjöf Flokkur
<8,4 Meistaraflokkur
8,5-12,5 1. flokkur
12,6-18,0 2. flokkur
18,1-24,5 3. flokkur
24,6-35,9 4. flokkur
36 Byrjendaflokkur

 

Konur
Forgjöf Flokkur
<23 Meistaraflokkur
23,1-35,9 1. flokkur
36 Byrjendaflokkur

 

Mótanefnd áskilur sér rétt til að sameina flokka sé fjöldi þáttakanda í ákveðnum flokkum ekki nægur.

 

 

Keppendum er heimilt að spila upp fyrir sig um einn flokk en að sama skapi getur keppandi aldrei fært sig niður um flokk og leikið með kylfingum með hærri forgjöf.

Mótið hefst miðvikudaginn 13. júlí og lýkur laugardaginn 16. júlí og stendur því yfir í 4 daga. Byrjendaflokkar hefja leik þann 14. og spila þeir því í 3 daga.

Ekki má svo gleyma að við munum slútta meistaramótinu með skemmtilegri veislu og verðlaunaafhendingu laugardagskvöldið 16. júlí. Hægt verður að skrá sig í matinn í skála og kosta herlegheitin aðeins 2000 kr. Þáttaka í veislunni stendur öllum klúbbmeðlimum og fjölskyldum þeirra til boða og er ekki bara bundin við keppendur.

Það er von okkar í mótanefnd að við munum sjá sem flest ykkar á vellinum með okkur í næstu viku.

 

Fyrir hönd mótanefndar

Bjarni Jónasson

Categories: Óflokkað

Ingibjörg sigrar á Hlíðarkaupamótinu

Ingibjörg Guðjónsdóttir sigraði af öryggi á Opna Hlíðarkaupamótinu sem fram fór síðast liðinn laugardag. Í öðru sæti varð Sigurður Hauksson og í því þriðja Hlynur Freyr Einarsson. Mörg mót er framundan á næstu dögum. Háforgjafarmót á þriðjudag, meistaramót hefst á miðvikudag og lýkur á laugardag og á sunnudaginn verður stórskemmtilegt mót sem tengt er British open. Hvetjum við sem allra flesta að taka þátt í þessum mótum enda veðurspáin afar góð.

Categories: Óflokkað

Upphaf holukeppni og Hlíðarkaupsmót

Golfmótin halda áfram og hvetjum við alla til að skrá sig í næsta miðvikudagsmót, sem jafnframt er upphaf holukeppni GSS. 16 efstu á mótinu komast áfram í holukeppnina. Jafnframt er Hlíðarkaupsmótið næstkomandi laugardag og að vanda vegleg verðlaun frá Ásgeiri í Hlíðó.

Categories: Óflokkað