Bréf til félagsmanna GSS

Ágætu félagar í GSS
Að undanförnu hafa nokkrir félagar í GSS rætt sín á milli um kaup á golfhermi í nýja inniaðstöðu klúbbsins. Sá hermir sem helst kemur til greina er af gerðinni Double Eagle DE3000 sem er einn sá besti sem völ er á. Í herminum er hægt að spila marga heimsþekkta golfvelli og er grafík eins og best verður á kosið. Einnig er afar mikilvægt að nútíma golfhermar gefa mjög raunhæfa mynd af sveiflu og raunverulegri getu. Þetta er því ekki bara tölvuleikur, heldur tæki til að bæta sig í golfi. Auk þess að spila golfvelli er hægt að vera á æfingarsvæðinu og fá nákvæmar upplýsingar um högg, lengdir, sveifluhraða o.s.frv. á sama hátt og mæling fer fram hjá söluaðilum á golfkylfum.

Ákveðið hefur verið að kanna áhuga félagsmanna og stofna áhugamannafélag um kaup á slíkum hermi. Ljóst er að einungis verður hægt að festa kaup á slíku tæki með samstilltu átaki margra. Ákveðið hefur verið að fara þá leið að fara þess á leit við félagsmenn að þeir kaupi fyrirfram tíma í herminn með afslætti og þannig verði hægt að safna nægu fjármagni til að hefjast handa. Jafnframt er mikilvægt að hefjast þegar handa, þannig að hermirinn geti verið kominn í gagnið fyrir áramót.

Í stuttu máli er hugmyndin sú að áhugamannafélagið kaupi golfherminn, safni fjármagni í upphafi að upphæð 1 milljón króna, en síðan verði seldir tímar í herminn. Hver klukkustund í herminum kosti 2500 krónur fyrir félagsmenn, en allt að 5 manns geti spilað í einu. Utan félagsmenn munu greiða hærra gjald, 3-3500 krónur. Einn 18. holu hringur tekur um 2-3 klukkustundir, en kostnaður dreifist að sjálfsögðu eftir því hversu margir spila í einu. Þess má geta að á höfuðborgarsvæðinu kostar klukkutíminn 3000-3500 krónur og er þar um að ræða eldri gerðir herma. Heildarkostnaður vegna hermisins og uppsetningar hans er um 5 milljónir króna.

Teljum við að með þessu móti og með jákvæðum viðbrögðum ykkar félagsmanna sé hægt að greiða herminn upp á u.þ.b. 5 árum og verði hann eign GSS að þeim tíma loknum.

Nú er boðið upp á eftirfarandi tilboð:
tímar pr.klst.                          án afsl.      m. afsl.
1                                                 2.500 kr.     2.500 kr.
10% afsl 10 tímar             25.000 kr.   22.500 kr.
15% afsl  25 tímar             62.500 kr.    53.125 kr.
Hvetjum við ykkur til að taka þátt í þessu verkefni og styðja þannig við bakið á þessari hugmynd. Fundur verður haldinn þriðjudagskvöldið 6. nóvember kl 20:00 í nýju æfingarhúsnæði GSS að Borgarflöt 2, þar sem verkefnið verður kynnt og hægt verður að skoða nýja húsnæðið, en á næstunni verður hafist handa við að leggja púttflöt. Vonumst við til að fyrir þann fund hafi talsverður fjöldi þegar ákveðið að taka þátt í þessu með okkur og séu tilbúin að kaupa fyrirfram nokkra hringi, þannig að hægt sé að átta sig á hvort þetta sé raunhæft.
Hægt er að fá nánari upplýsingar um verkefnið hjá eftirtöldum:
Guðmundi Ragnarssyni, Ásgeiri í Hlíðó, Hirti Geirmunds, Pétri Friðjóns, Unnari Ingvars, Kristjáni KPMG eða Muggi.

Hægt er að senda inn tilkynningu um kaup í netfangið unnar.ingvarsson@gmail.com eða koma upplýsingum til einhverra af þessum aðilum.

 

Hér er hægt að fá nánari upplýsingar um viðkomandi golfhermi: http://www.partgolf.com/

Með von um jákvæðar undirtektir.
Nefndin!

Categories: Óflokkað

Golfmót um helgina.

Golfmót á Hlíðarenda á morgun 20. október. 

Fyrirkomulagið er punktakeppni.  Allir ræstir út á sama tíma klukkan 11:00. 

Betra er að fólk skráir sig á golf.is en einnig er hægt að skrá sig til leiks í golfskála.

Þátttökugjald er 1500 kr. Gómsætir vinningar.

Categories: Óflokkað

Golfmót laugardaginn 13.október

Hið eðalgóða Sauðárkróksbakarí býður til golfmóts laugardaginn  13. október. Enn færi á að lækka sig í forgjöf.

Veðurspá lofar góðu. Punktakeppni. Bakkelsi í verðlaun.

Ræst út á öllum teigum samtímis kl 10:00 . Skráning á neti léttir mótanefnd störf en einnig möguleiki á að skrá sig í skála.

Einnig verður gefinn 25% afsláttur af endursöluvörum (öðrum en gosi og sælgæti)

Categories: Óflokkað