Meistaramót GSS 2020

Meistaramót GSS fór fram dagana 8. – 11. júlí í góðu veðri á Hlíðarendaavelli sem var í toppstandi.  Þátttaka var góð og keppt í 7 flokkum.  Klúbbmeistarar GSS árið 2020 eru Arnar Geir Hjartarson og Anna Karen Hjartardóttir.  Mótinu lauk með verðlaunaafhendingu í lokahófi í golfskálanum þar sem snæddur var góður matur frá KK restaurant.
Nánari upplýsingar um úrslit eru á golf.is

Anna Karen og Arnar Geir klúbbmeistarar
Meistaramót GSS 2020: hluti keppenda
Öldungaflokkur:Reynir (2), Haraldur (1) og Sigmundur (3).
Annar flokkur kvenna. Rakel (3), Halldóra (1) og Sirrý (2)
Annar flokkur karla: Tómas (2), Guðni (1) og Guðmundur (3)
Fyrsti flokkur kvenna: Una Karen (2), Rebekka (1) og Hafdís (3)
Fyrsti flokkur karla: Hjörtur (2) og Magnús (1), á myndina vantar Friðjón (3).
Meistaraflokkur kvenna: Hildur (2), Anna (1) og Dagbjört (3)
Meistaraflokkur karla: Hlynur (2), Arnar (1) og Jóhann (3).

Categories: Félagsstarf Mótanefnd

Kvennamót GSS 2020

Kvennamót GSS fór fram í sólinni á Hlíðarendavelli laugardaginn 4. júlí, sautjánda árið í röð. Kylfingar glímdu við vind úr ýmsum áttum en skarðagolan var þó áberandi. Völlurinn skartaði sínu fegursta, blómum skreyttur og snyrtilegur í alla staði. Um 50 konur mættu til leiks og heppnaðist mótið vel. Sigurvegari í ár var Dagbjört Rós Hermundóttir GSS, en nánari úrslit má nálgast á golf.is.Konur í klúbbnum hjálpast að við undirbúning og utanumhald mótsins en mótið er styrkt af fjölda fyrirtækja í Skagafirði og víðar. Að vanda svignaði verðlaunaborðið undan glæsilegum verðlaunum og er styrktaraðilum færðar hjartans þakkir fyrir stuðninginn.

Þátttakendur í Kvennamóti GSS 2020
Rósir voru við alla teiga
Glæsileg og fjölbreytt verðlaun

Categories: Félagsstarf

Ýmsar reglur

Ánægulegt er að sjá hve margir eru farnir að spila á vellinum. Nýliðar læra golfreglurnar smátt og smátt eftir því sem þeir spila oftar. Gott er að spila og læra af reyndari kylfingum, t.d. í mótum.
Nú hafa vonandi allir félagsmenn lært það að enginn á að spila á vellinum nema vera með skráðan rástíma.

GSS er aðildarfélag UMSS og við störfum eftir siðareglum UMSS. Reglurnar er að finna í handbók GSS á heimasíðu okkar og einnig á heimasíðu UMSS. Segja má að kjarninn í reglunum sé virðing, heilindi, sanngirni og réttlæti.

Að auki kappkosta félagsmenn GSS að umgangast völlinn af virðingu. Það þýðir m.a. að laga boltaför á flötum, fara ekki með kerrur inn á flatir og reyndar ekki á milli glompu og flatar. Við skilum torfum út á braut aftur á stað sinn og við rökum glompu (bönker) eftir að við höfum slegið þaðan. Rusl á heima í ruslatunnum og brotin tí í litlum kössum á teig.

Halda þarf uppi spilahraða. Í stuttu máli þarf hvert holl að gæta þess að halda í við næsta holl. Hleypið fram úr ef holl á eftir ykkur spilar hraðar og laust pláss er fyrir framan ykkur. Spilið af teig við hæfi. Staðsetjið kerru milli flatar og næsta teigs til að flýta fyrir eftir að leik brautar er lokið. Gangið rösklega af flöt og skráið skor við næsta teig. Takið bolta upp ef fjöldi högga er kominn 5 yfir par brautar.

Segja má að allar ofangreindar reglur kristallist í einni reglu: berðu virðingu fyrir náunganum, íþróttinni og vellinum.

Góða skemmtun á Hlíðarendavelli 

Categories: Óflokkað