Covid 19

Samkomubann frá og með 16. mars hefur áhrif á starf GSS með eftirfarandi hætti:

  • Formlegar æfingar GSS falla niður.
  • Tímar eldri kylfingar falla niður, en þeir áttu að vera á Flötinni á mánudögum kl 10 – 12.
  • Inniaðstaðan er opin félagsmönnum en fara skal að fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir og hegðun í samkomubanni. Félagsmenn æfa á eigin ábyrgð.
  • Skemmtikvöldi og kynningu á Golfbox er frestað um óákveðinn tíma.
  • Æfingar barna og unglinga falla niður á meðan samkomubann varir, sbr. tilkynningu frá barna- og unglinganefnd GSS:

„Kæru foreldrar,

Barna- og unglinganefnd GSS hefur tekið þá ákvörðun að fella niður allar golfæfingar á meðan samkomubannið varir. Ástæðan er m.a. sú að við sjáum ekki fram á að geta framfylgt leiðbeiningum sóttvarnarlæknis varðandi tveggja metra fjarlægð á milli einstaklinga á æfingum. Að auki fá mörg barnanna lánaðar kylfur hjá okkur og eru oft á tíðum að skiptast á.

Við fylgjumst áfram með tilkynningum frá Almannavörnum, sóttvarnalækni og landlæknisembættinu og látum ykkur vita ef við sjáum fram á að geta hafið æfingar að nýju.

Við hvetjum ykkur til að huga vel að ykkur og fara varlega.

Bestu kveðjur til ykkar og krakkanna frá okkur öllum í nefndinni og þjálfurunum.“

Categories: Félagsstarf

Arnar Geir og félagar sigruðu í Mississippi

9. og 10. mars s.l. léku Arnar Geir Hjartarson og félagar hans í golfliði Missouri Valley College á fyrsta móti sínu í NAIA mótaröðinni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Spilaðar voru 36 holur á Canebrake Country Club  golfvellinum í Mississippi. 14 lið mættu til leiks og milli 70 og 80 golfarar voru mættir til leiks. 5 leikmenn eru í hverjum liði og einnig spila nokkrir án liðs í einstaklingskeppninni. Liðið sigraði á 578 höggum samtals eða 2 yfir pari í heildina og voru 9 höggum á undan næsta liði. Arnar Geir endaði síðan í 18. sæti í einstaklingskeppninni á 148 höggum eða 4 höggum yfir pari samtals. Þegar þetta er skrifað þá er búið að fresta allri keppni í háskólagolfinu í Bandaríkjunum og því eru allar líkur á því að þetta hafi verið síðasta mót Arnars og félaga hans í golfliði Missouri Valley College. Hægt er að sjá heildarúrslit í mótinu hér: http://results.golfstat.com/public/leaderboards/gsnav.cfm?pg=team&tid=18540&fbclid=IwAR3hg3Hb4L6_khPvTcvHXcUWmvd86nl9WxzV4p2Zlv0Od1l9mJq6W4fY3-4

Categories: Afreksstarf