Author: Stjórn GSS

Gott golfsumar

Góð aðsókn hefur verið að Hlíðarendavelli í sumar.  Stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar (GSS) lagði áherslu á að laða ferðakylfinga til Skagafjarðar. Það var gert með ýmsu móti, m.a. með fjölgun vinaklúbba og auglýsingum á samfélagsmiðlum.  Í byrjun sumars var gefið út 50 ára afmælisrit GSS sem dreift var á heimili og fyrirtæki í Skagafirði. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir styrktu útgáfu ritisins, sem og UMFÍ og SSNV.  

Aukin áhugi á golf
Aukin aðsókn á völlinn var m.a. afleiðing þess að Íslendingar ferðuðust innanlands þetta sumarið.  Fjölgun félaga í golfklúbbum á Íslandi var 11% að meðaltali árið 2020.  GSS má vel við una þar sem fjölgunin þar var 22%.  Samkvæmt iðkendatölum ÍSÍ  er knattspyrna með flesta iðkendur en golf kemur næst á eftir.  Golfið er þó vinsælast meðal iðkenda 30 ára og eldri.  Metaðsókn var á nýliðnámskeið GSS í vor og þar mátti sjá fólk á öllum aldri. Þegar hafa nokkrir haft samband við stjórn GSS til að taka frá pláss á nýliðanámskeiði vorið 2021.

Mótahald 2020
GSS stendur fyrir fjölda móta á hverju ári.  Covid hafði tiltölulega lítil áhrif á mótahaldið, en þó þurfti að lágmarka viðveru í skála og gæta að sóttvörnum í samræmi við fyrirmæli yfirvalda og reglur GSÍ. Mótin eru ýmist innanfélagsmót eða opin mót.  Mótin eru styrkt af fyrirtækjum í Skagafirði.  Innanfélagsmótin eru Hard Wok háforgjafarmót og KK restaurant mót og sem haldin eru vikulega yfir sumarið.  Meistaramót GSS er einnig innanfélagsmót og er hápunktur sumarsins, en mótið stendur yfir í 3-4 daga.  Holukeppni GSS er sömuleiðis innanfélagsmót, en holukeppnin er skemmtilegt form þar sem tveir keppa og sá sem tapar fellur úr keppni. Opnu mót sumarsins voru Advania, KS, Hlíðarkaup, Steinull, Afmælismót GSS og Kvennamót GSS.  Í barna- og unglingaflokki stóð GSS fyrir Nýprent Open sem var hluti af Norðurlandsmótaröðinni. Einnig voru vikuleg mót haldin fyrir börn og unglinga.  Upplýsingar um sigurvegara mótanna eru á www.golf.is
Auk ofangreindra móta voru gullteigamót fyrir þátttakendur á nýliðanámskeiði.  Jónsmessumót voru endurvakin sem Sólstöðumót. 
Þar að auki hafa fyrirtæki og félagasamtök haldið mót á vellinum í samvinnu við GSS.  Nefna má árlegt mót Rótarý sem haldið var 8. september, en Rótarýmenn voru frumkvöðlar að stofnun GSS árið 1970. Mótahald stendur enn yfir með síðsumarsmótum í september. 

Ekki má gleyma Íslandsmóti golfklúbba þar sem sveitir GSS stóðu sig með sóma. Árangur Arnars Geirs á Íslandsmóti einstaklinga vakti líka verðskuldaða athygli.

Vetrarstarf
Kylfingar GSS hafa spilað á Hlíðarenda fram í október undanfarin ár.  Skammdegið og Vetur konungur hafa loks vinninginn og höggunum fækkar eftir því sem líður á haustið.   Félagsmenn færa sig þá í inniaðstöðu á Borgarflöt. Þar er púttvöllur og hermir – og alltaf gott veður.  Barna- og unglingastarf færist inn á veturnar með reglulegum æfingum eftir áramót. Nútíma hermar gera kleift að spila golf allt árið.  Tækninni fleygir fram og hermarnir líkja eftiri flugi kúlunnar svo aðeins skeikar nokkrum centimetrum.  Nýjustu hermarnir gefa upplýsingar sem nýttar eru til að bæta tækni og þjálfun.  Á tímum Covid spillir ekki fyrir að spila má á frægustu völlum heimsins. 

Afmælisárið
GSS hefur haldið upp á 50 ára afmæli klúbbsins með ýmsum hætti, s.s. afmælismóti og útgáfu afmælisrits.  Afmælishófi GSS hefur verið frestað ótímabundið. Afmælisferð til Póllands var frestað um ár og sömuleiðis ferð barna og unglinga til Danmerkur. Þolinmæði þrautir vinnur allar og við horfum bjartsýn til næsta golfsumars.

Categories: Félagsstarf

Mót framundan og skáli

Keppendur á mótum GSS eru beðnir að lágmarka viðveru í skála. Skálinn verður opinn á mótum þar til keppendur hefja leik.

Viðbótarstaðarreglur vegna Covid eru eins og fram kemur í reglum GSÍ frá 14. ágúst.

Boltavél á æfingasvæði verður lokuð frá og með 23. ágúst.  

Categories: Óflokkað