Author: Stjórn GSS

Tilnefningar GSS til íþróttamanns og liðs Skagafjarðar 2019

Golfklúbbur Skagafjarðar tilnefndi Arnar Geir Hjartarson sem íþróttamann ársins og kvennalið GSS sem lið ársins 2019. Valið er í höndum 10 manna nefndar UMSS. Valið verður kynnt í athöfninni „Íþróttamaður ársins 2019“ sem fram fer í Ljósheimum föstudaginn 27. desember kl 20:00. Jafnframt munu ungir efnilegir íþróttamenn innan UMSS fá hvatningarverðlaun. Félagar GSS eru hvattir til að mæta á athöfnina sem er öllum opin. 

Arnar Geir Hjartarson

Arnar Geir varði klúbbmeistaratitil sinn á árlegu fjögurra daga Meistaramóti golfkúbbsins og er án efa sterkasti kylfingur Skagafjarðar um þessar mundir.  Hann hafði mikla yfirburði á innanfélagsmóti GSS, sigraði þar með og án forgjafar.  Arnar Geir setti einnig vallarmet á Hlíðarendavelli í sumar þegar hann spilaði völlinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari vallarins.  Vallarmetið setti hann á miðvikudagsmóti Kaffi Króks þann 7. ágúst.  Forgjöfin lækkaði úr 2,2 í 0,6 á árinu sem staðfestir framfarir í kjölfar þrotlausra æfinga.  Arnar Geir var í karlasveit GSS og sigraði allar sínar viðureignir á íslandsmóti golfklúbba 3. deild í Grindavík.
Arnar Geir er á sínu þriðja ári í háskóla við Missouri Valley College. Þar komst hann inn á skólastyrk vegna golfiðkunar og splar með golfliði skólans.  Í vor sigraði lið hans deildarkeppni háskóla í miðríkjum Bandaríkjanna og komst liðið þar með á lokamót NAIA háskólamótaraðarinnar í Bandaríkjunum.  Lokamótið var haldið í Arizona og og mættu 30 lið til leiks.  Liðið endaði þar í 13. sæti á landsvísu. Þetta var besti árangur skólans sem hafði fram að þessu aldrei náð að komast í lokakeppni.

Þetta var í fyrsta skipti sem lið frá skólanum vinnur deildarmeistaratitil í golfi.  Arnar Geir endaði golfárið í Bandaríkjunum, eftir gott sumar í Skagafirði, með því að verða holukeppnimeistari golfliðs háskólans.  Þar að auki var hann í haust kosinn fyrirliði skólaliðsins og spilaði í öllum keppnum haustsins með liðinu.
Arnar Geir er ungum kylfingum fyrirmynd utan vallar sem innan.

Kvennasveit GSS

Kvennasveit GSS hélt sæti sínu í efstu deild golfklúbba á árinu.  Leikið var á Íslandsmóti golfklúbba í 1.deild í júlí og endaði sveit GSS í 7. sæti. Leikið var á tveimur völlum, hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og Golfklúbbnum Oddi. Allar sterkustu sveitir landsins tóku þátt, en tvær deildir eru í íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki. Næsta ár verður því þriðja árið í röð sem GSS leikur í 1.deild kvenna.  Sveitina skipuðu:

Anna Karen Hjartardóttir, Árný Lilja Árnadóttir, Dagbjört Hermundsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Sigríður Elín Þórðardóttir, Sólborg Hermundsdóttir, Telma Ösp Einarsdóttir

Liðsstjóri: Árný Lilja Árnadóttir

GSS 50 ára 2020

Golfklúbbur Skagafjarðar verður 50 ára árið 2020.  Við viljum sýna okkar bestu hliðar á afmælisári og ýmislegt er á döfinni.  Meðal annars má nefna:

  • Aukin áhersla á barna- og unglingastarf. Á sumrin er æft virka daga í tveimur aldurflokkum og á veturna (janúar – apríl) er æft inni á Flötinni, inniaðstöðu GSS. Við munum halda þessu starfi áfram en viljum bæta í með aukinni aðkomu PGA þjálfara.

  • Útgáfa 50 ára afmælisrits.  Í afmælisritinu verða viðtöl við félagsmenn, saga klúbbsins verður rakin og logo styrktaraðila verða áberandi.  Ritinu verður dreift til félagsmanna, fyrirtækja og stofnana í Skagafirði, auk þess sem ritiið verður gert aðgengilegt rafrænt á heimasíðu okkar og vefsíðunni golf.is sem allir golfarar á Íslandi heimsækja reglulega. 

  • Öflugt mótahald.  Mótahald golfklúbbsins er blómlegt en GSS stóð fyrir 36 golfmótum árið 2019.  Flest þessara móta eru haldin í samstarfi við fyrirtæki og bera heiti fyrirtækisins sem styrkir mótið.  Á afmælisári ætlum við að halda áfram góðu mótastarfi og bæta um betur með veglegu afmælismóti.

  • Endurbætur á vellinum.  Góður golfvöllur er grunnurinn að góðu starfi.  Við erum stolt af vellinum okkar sem er í fremstu röð 9 holu golfvalla á Íslandi.  Við viljum vera í fremstu röð áfram en til þess þarfnast völlurinn stöðugs viðhalds og endurbóta.  Vallarnefnd GSS hefur sett fram metnaðarfulla áætlun um endurbætur vallarins til næstu ára þar sem margt mun koma til framkvæmd á afmælisári 2020.

  • Bætt aðstaða í golfskála.  Golfskálinn er vettvangur þar sem félagar koma saman að loknum góðum hring, þar sem börn og unglingar hafa aðstöðu fyrir og eftir æfingar, þar sem ferðagolfar setjast niður og slaka á í fögru umhverfi og síðast en ekki síst er golfskálinn nauðsynlegur fyrir mótahald.  Skálinn er farinn að láta á sjá og nauðsynlegt að sinna viðhaldi hans.  Þá er orðið löngu tímabært að endurnýja húsgögn.

  • Fjölgun félaga.  Nýliðanámskeið hafa verið vel heppnuð og leitt til fjölgunar félaga í klúbbnum.  Við viljum gera enn betur.  Stefnt er að sérstakri kynningu meðal nýbúa, eldri borgurum verður boðið upp á púttnámskeið og sérstakar kynningar verða í byggðakjörnum utan Sauðárkróks.  Nafni klúbbsins var breytt í nóvember 2019 og heitir hann nú Golfklúbbur Skagfirðinga og leggjum við með því áherslu á að klúbburinn er fyrir alla íbúa Skagafjarðar.

  • Nútímaþjálfun.  Golfþjálfun hefur tekið miklum framförum undanfarin ár.  Þar munar mest um framfarir í golfhermum sem gera kleift að æfa golf allt árið með nákvæmum upplýsingum um boltaflug og sveiflu.  Sífellt fleiri golfklúbbar hafa notfært sér tækniframfarirnar og fjárfest í fullkomnum golfhermum (Trackman).  Við viljum ekki vera eftirbátar öllu lengur og viljum fjárfesta í slíkum hermi.  Nýr golfhermir mun hafa í för með sér betri þjálfun fyrir börn, unglinga og fullorðna félagsmenn GSS.

Starf GSS er fjölþætt og fer vaxandi.  Við viljum nýta tækifærin sem eru fólgin í vaxandi vinsældum golfs á Íslandi, aukinni áherslu á heilsueflingu og hlýnandi veðurfari.  Við sjáum tækifæri til að efla starfsemi GSS á afmælisári með hjálp góðra fyrirtækja.  Við viljum einnig vinna með fyrirtækjum að því að brjóta upp starfið á starfsmannadögum eða skemmtidögum, s.s. með púttmóti eða golfmóti á Hlíðarendavelli eða í inniaðstöðu.  

Categories: Óflokkað