Author: Unglinganefnd GSS

Þekktur golfkennari að koma á Hlíðarenda

Í samstarfi við nokkra aðila innan golfhreyfingarinnar á Norðurlandi hefur verið ákveðið að John Garner mun koma á Sauðárkrók í nokkrar heimsóknir í sumar, sú fyrsta á þriðjudag og miðvikudag í þessari viku.

John R. Garner er fæddur 9. janúar 1947 í Englandi en býr núna í Taranaki á Nýja Sjálandi þar sem hann starfar við golfkennslu. John Garner er fyrrum atvinnumaður í golfi en hann gerðist ungur atvinnumaður eða 16 ára. Hann vann eitt mót á Evróputúrnum á sínum ferli (British Match Play Champion 1972) og síðan á Evróputúr öldunga (Senior Tournament Champions of Champions 1999). Garner tók þátt í Ryder Cup keppninni árin 1971 og 1973 fyrir hönd Evrópu. Einn besti árangur Garners var árið 1974 þegar hann lenti í 11. sæti á Opna Breska meistaramótinu en það ár vann Gary Player mótið í þriðja skiptið.
Garner er heiðursfélagi í bresku PGA samtökunum og Nýsjálendingar kalla hann stutta-spils gúrú. Garner hefur verið landsliðsþjálfari í gegnum tíðina og var til að mynda fyrsti landsliðsþjálfari Írlands árið 1983 og þjálfaði þar Darren Clarke PGA atvinnukylfing sem vann Opna Breska árið 2011. Garner þjálfaði íslenska landsliðið í golfi frá árunum 1989-1996 og flutti síðan til Íslands 2001-2002 og kvæntist íslenskri konu, Svölu, árið 2004.

Garner hefur þjálfað golf í langan tíma við góðan orðstír og er hvalreki fyrir hvaða golfklúbb sem er.  Við hvetjum alla til að nýta sér þetta einstaka tækifæri.  Nánari upplýsingar hjá Árnýju (s.8499420, arnyl@simnet.is).

John Garner
Master PGA Professional
Verðskrá:
Einstaklingar 40 mín. – 8.000kr.
Hjón / pör 1 Klst. – 12.000kr.
Hóptími 4-6 manns, 1 ½ klst. – 5.000kr. á mann

Former National Coach to Iceland, Wales, English Ladies and Ireland
Ryder Cup Team 1971, 1973 British Match Play Champion 1972
Senior Tournament Champions of Champions 1999
Honorary Member of the PGA
Status of Master Professional of the PGA 2012

Categories: Óflokkað

Nýprent Open barna- og unglingamótið 25. júní

Minnum á Nýprent Open, barna- og unglingamót GSS sem er fyrsta mótið í Norðurlandsmótaröðinni.

Mótið er aldursskipt; 12 ára og yngri, 14 ára og yngri, 15-17 ára og 18-21 árs, auk byrjendaflokks sem er ekki aldursskiptur. Í lokin eru grillaðar pylsur fyrir alla, keppendur og aðstoðarmenn. Eldri hóparnir hefja leik kl. 9 en 12 ára og yngri og byrjendur eftir hádegi.
Við hvetjum alla krakka sem hafa áhuga á að taka þátt í mótinu, að ráðfæra sig við þjálfara og skrá sig, annað hvort á golf.is eða á skráningarblaði sem hangir uppi í skála. Keppendur fá teiggjöf í byrjun móts, veitt eru verðlaun fyrir 3 efstu sæti í aldursflokkum en allir keppendur í byrjendaflokki fá þátttökuverðlaun.

Unglinganefndin.

Categories: Óflokkað

Íslandsmót golfklúbba 15 ára og yngri 2016

2016stúlknasveitGSS DrengjasveitGSS2016Golfklúbbur Sauðárkróks sendi tvær sveitir í Íslandsmót golfklúbba, 15 ára og yngri, dagana 12-14 ágúst. Stúlknasveit sem keppti á Þorláksvelli í Þorlákshöfn og drengjasveit sem keppti á Selsvelli á Flúðum

Stúlknasveitina skipuðu: Anna Karen Hjartardóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Maríanna Ulriksen, María Rut Gunnlaugsdóttir, Rebekka Barðdal Róbertsdóttir og Una Karen Guðmundsdóttir. Liðstjóri var Hjörtur Geirmundsson og Jón Þorsteinn þjálfari var á svæðinu og veitti góð ráð þegar á þurfti.
Til leiks voru skráðar 8 sveitir frá 6 golfklúbbum.

Drengjasveitina skipuðu: Arnar Freyr Guðmundsson, Bogi Sigurbjörnsson, Brynjar Már Guðmundsson, Hákon Ingi Rafnsson, Reynir Bjarkan Róbertsson og Tómas Bjarki Guðmundsson. Liðstjóri var Árný Lilja Árnadóttir. Til leiks voru skráðar 20 sveitir frá 14 golfklúbbum.

Á föstudeginum var leikinn 18 holu höggleikur til að raða niður í A og B riðla hjá stúlkunum og voru 4 úr hverri sveit sem léku og 3 lægstu skor töldu til uppröðunar. Maríanna lék á 97 höggum, Anna Karen á 106, Hildur Heba á 110 og Rebekka lék á 135 höggum. Þessi niðurstaða skilaði 7. sæti og B riðill niðurstaðan. Strax eftir hádegið var leikin fyrsta umferð í holukeppninni. Fyrirkomulagið er þannig að fyrst er leikinn fjórmenningur þ.e. tveir leika einum bolta og slá til skiptis og síðan eru leiknir tveir tvímenningsleikir þ.e. maður á mann. Það leika því alltaf 4 í hverri umferð.
Leikið var fyrst við GR-a sveit. Anna Karen og Una Karen spiluðu fjórmenning og töpuðu 9/7, Maríanna spilaði tvímenning og tapaði 7/6 og Hildur Heba spilaði einnig tvímenning og sigraði í bráðabana á 19. holu í sannkölluðum spennuleik. Á laugardaginn voru leiknar tvær umferðir í holukeppni. Fyrst var leikið við GKG-b og þar léku Hildur Heba og María Rut fjórmenning og töpuðu 7/6. Anna Karen og Maríanna léku tvímenning og sigruðu báðar í sínum leikjum 2/1. Fyrsti sigurinn því í höfn. Eftir hádegið var síðan leikið við GK og úr því varð hörkuviðureign og ljóst að sigurvegarinn úr þeim leik myndi leika um 3.sætið en tapliðið um 7. sætið. Í fjórmenningi léku Anna Karen og Rebekka og töpuðu 6/4. Hildur og Maríanna léku tvímenning og sigruðu báðar í sínum leikjum, Hildur 4/3 og Maríanna sigraði með því að vinna lokaholuna glæsilega og 1/0. Frábær sigur og ljóst var að leikið yrði um bronsið á sunnudeginum. Næstu mótherjar voru því GR-b. Liðið var óbreytt frá sigurleiknum daginn áður. Anna Karen og Rebekka spiluðu fjórmenning og úr varð hörkuviðureign þar sem þær töpuðu að lokum á 16.holu 3/2. Sama átti við um báða tvímenningsleikina sem Hildur og Maríanna léku að þeir voru báðir mjög spennandi. Maríanna vann sinn leik á 17. holu 2/1 en Hildur tapaði sínum leik á 18. holu 2/0.
Niðurstaðan var því 4. sætið sem er mjög góður árangur í ljósi þess að þessar stúlkur voru allar að spila í sínu fyrsta Íslandsmóti golfklúbba, meirihluti þeirra mjög ungar og yfirleitt mun yngri en þær stúlkur sem þær voru að spila við.

Drengirnir léku einnig höggleik á föstudeginum, þar sem Arnar lék á 94 höggum, Hákon Ingi 87, Bogi 109 og Reynir 114. Lenti GSS sveitin í 18. sæti sem raðaði sveitinni í E-riðil. í holukeppnishluta mótsins léku Bogi og Reynir í fjórmenningi, unnu 1 leik á móti B- liði Akureyrar og töpuðu 2 leikjum, á móti sameiginlegu liði Suðurlands og liði Vestmannaeyja, hörkuspennandi leikir og réðust úrslit á lokaholunum. Arnar Freyr og Hákon Ingi léku tvímenning, Arnar Freyr tapaði sínum leikjum eftir mikla baráttu en Hákon Ingi vann sína leiki. Brynjar Már og Tómas Bjarki, litlu ofurhetjurnar okkar drógu fyrir liðsfélaga sína og hjálpuðu mikið til.
Allir, utan Hákons Inga, voru að fara í fyrsta skipti í íslandsmót golfklúbba, þeir lögðu sig mikið fram og voru klúbbnum til mikils sóma bæði innan vallar sem utan, niðurstaðan 18. sæti.

Þessir dagar voru mjög skemmtilegir og lærdómsríkir. Það var þéttur hópur fjölmargra foreldra sem fylgdi hópunum og gisti allur hópurinn saman á einum stað sem gerði bara þessa daga eftirminnilegri og skemmtilegri fyrir vikið.

Categories: Óflokkað