Author: Unglinganefnd GSS

Úrslit í Opna Advania mótinu

Opna Advania 2015Opna Advania mótið fór fram laugardaginn 5.september.

Spilaður var 18 holu betri bolti sem er liðakeppni þar sem tveir eru saman í liði og betra skorið á holunni er talið til punkta. 32 keppendur voru í mótinu í sunnan golu og ágætis hita.

Keppnin var mjög jöfn og voru skoða varð punktafjölda á seinni 9 holum til að skera úr um úrslit sem urðu eftirfarandi.

 

1. Arnar Geir Hjartarson og Elvar Ingi Hjartarson 41 punktur ( 22 á seinni 9 )

2. Ásmundur Baldvinsson og Björn Jónsson 41 punktur ( 19 á seinni 9 )

3. Björn Sigurðsson og Ingibjörg Guðjónsdóttir 38 punktar ( 21 á seinni 9 )

4. Dagbjört Hermundsdóttir og Hlynur Freyr Einarsson 38 punktar ( 20 á seinni 9 )

5. Karl Wernersson og Þórður Jónsson 38 punktar ( 17 á seinni 9 )
Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir að vera næst/næstur holu á 6/15 braut og var það Elvar Ingi Hjartarson sem var 1,72 m frá holu.

Categories: Óflokkað

Uppskeruhátíð barna og unglinga

Uppskeruhátíð barna og unglingastarfs Golfklúbbs Sauðárkróks var haldin í dag. Flott mæting var og mikil stemming. Byrjað var á því að taka létt“speed-golf“ mót áður en uppskeruhátíðin sjálf hófst.Allur hópurinn á uppskeruhátíðinni

Að því búnu var farið í golfskálann þar sem allir fengu gjöf frá KPMG og síðan voru veittar viðurkenningar fyrir starfið:
Bestu kylfingarnir voru þau Marianna Ulriksen og Elvar Ingi Hjartarson

Mestu framfarir hlutu Telma Ösp Einarsdóttir og Hákon Ingi Rafnsson

Efnilegust voru Rebekka Róbertsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson

Bestu ástundum fengu María Rut Gunnlaugsdóttir og Gísli Kristjánsson

Síðan voru veitt verðlaun fyrir þau sem voru til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan. Þau hlutu Anna Karen Hjartardóttir og Bogi Sigurbjörnsson.

Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir einvígi ( shoot-out ) sem fór fram fyrr í ágúst en þar sigraði Reynir Bjarkan Róbertsson.

Þá voru líka veittar viðurkenningar fyrir hraðgolfmót ( speed-golf ) sem fór fram fyrir uppskeruhátiðina en þar sigraði Brynjar Guðmundsson.

Það er ástæða þakka öllum kærlega fyrir starfið í sumar. Iðkendur hafa verið til fyrirmyndar og foreldrar hafa verið dugleg að taka þátt í öllu og styðja við sitt fólk. Svo ber að þakka Jóni Þorsteini golfkennara og Telmu Ösp sérstaklega fyrir allt utanumhald í kringum golfskólann í sumar.

Að þessu loknu voru veitingar að hætti barna- og unglingastarfsins.
Myndir frá uppskeruhátíðinni er að finna á facebook síðu unglingastarfsins

 

Categories: Óflokkað

GSS í 3.sæti í sveitakeppni karla í 3.deild

Karlasveit GSS í sveitakeppni GSÍ 2015
Karlasveit GSS í sveitakeppni GSÍ 2015

Golfklúbbur Sauðárkróks keppti dagana 7-9 ágúst í sveitakeppni Golfsambands Íslands í 3.deild á Bárarvelli við Grundarfjörð. Í liði GSS voru að þessu sinni þeir Arnar Geir Hjartarson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Jóhann Örn Bjarkason og Jón Þorsteinn Hjartarson. Liðsstjóri var Hjörtur Geirmundsson.

Keppt er í 5 deildum í karlaflokki og eru 8 lið í hverri deild alla jafna. Í 3.deild er keppt með holukeppnisfyrirkomulagi þannig að tveir úr hvoru liði spila saman svokallaðan fjórmenning og síðan spila 2 sinn hvorn tvímenningsleikinn. Keppt er í tveimur 4. liða riðlum. Þetta eru því 3 leikir í hverri umferð.

1. umferðin var leikin á föstudagsmorgni og þá lék GSS við Golklúbb Hellu(GHR). Elvar Ingi og Jóhann Örn spiluðu fjórmenning og sigruðu 5/4. Í tvímenningsleikjunum tapaði Arnar Geir 1/0 og Jón Þorsteinn tapaði 2/1. Eftir hádegið á föstudeginum var leikið á móti Golfklúbbnum Hamri á Dalvík (GHD). Elvar Ingi og Jóhann Örn spiluðu fjórmenning og sigruðu 2/0. Í tvímenningi tapaði Arnar Geir 2/1 og Jón Þorsteinn 4/2. Það var því ljóst að ef GSS ætlaði að lenda í 2.sæti riðilsins þá þyrfti að sigra í öllum leikjum á móti heimamönnnum í Golfklúbbnum Vestarr á laugardagsmorgninum. Fjórmenninginn spiluðu þeir Jóhann Örn og Jón Þorsteinn og var sá leikur mjög spennandi en að lokum höfðu þeir sigur 1/0. Tvímenningsleikirnir unnust nokkuð örugglega. Arnar Geir sigraði 3/2 og Elvar Ingi sigraði 4/3. Eftir þann leik var ljóst að GSS myndi lenda í öðru sæti riðilsins og spila eftir hádegið við efsta sætið í hinum riðlinum sem var Golfklúbbur Akureyrar (GA). Sama liðsskipan var í þeim leik og um hörkuviðureign varð að ræða þó svo á endanum töpuðust allir leikirnir. Jóhann Örn og Jón Þorsteinn töpuðu með minnsta mögulega mun 1/0 og einnig Elvar Ingi í sínum leik 1/0 en Arnar Geir tapaði 3/2. Það var því ljóst eftir þann leik að GA myndi leika í 2.deild á næsta ári. Í hinum undanúrslitaleiknum léku Dalvík ( GHD) og Húsavík ( GH) og þar sigraði GHD í tveimur viðureignum en GH í einni. Lokaleikur GSS var því á móti GH á sunnudagsmorgninum. Í fjórmenningi léku þeir Arnar Geir og Elvar Ingi og sigruðu mjög örugglega 7/6 í sínum leik. Hákon Ingi Rafnsson lék síðan fyrsta leik sinn í sveitakeppni karla, 14 ára gamall, og tapaði 6/5. Jóhann Örn sigraði síðan 2/1 í sínum leik og 3.sætið staðreynd hjá GSS sem er alveg ljómandi árangur.

Þetta var mjög skemmtileg keppni í alla staði og vel að hlutum staðið hjá heimamönnum á Grundarfirði. Allt skipulag til fyrirmyndar og völlurinn alveg stórskemmtilegur og óhætt að mæla með honum við alla golfara.

Meðfylgjandi er mynd af sveit GSS.

Categories: Óflokkað