Frábær helgi að baki
Fjölmennt var að Hlíðarenda síðastliðna helgi, enda tvö stórmót á dagskránni. Á laugardaginn kepptu 55 konur á Kvennamóti GSS í frábæru veðri og var stemmingin stórkostleg að vanda. Keppt var í punktakeppni og sigraði Anna Einarsdóttir úr GA en í 2 og 3 sæti urðu heimakonurnar Sigríður Elín Þórðardóttir og Aldís Ósk Unnarsdóttir. Allar konurnar fengu vegleg verðlaun á mótinu, sem hlýtur að var einsdæmi í mótahaldi á Íslandi, en fjölmörg fyrirtæki á Sauðárkróki og víðar lögðu þar höld á plóg.
Á sunnudaginn fór síðan fram Nýprent open. Skrautfjöður GSS í barna- og unglingastarfi. Veðrið var frábært á laugardaginn, en enn betra á sunnudaginn, um 20 stiga hiti og logn, sem er sjaldgæft á Hlíðarenda. Milli 70 og 80 börn – og unglingar tóku þátt og fylgdu foreldrar flestum börnunum þannig að margt var um manninn. Frábær árangur náðist á mótinu. Margir lækkuðu verulega í forgjöf og greinilegt að starf þjálfarans hjá GSS er að skila sér. Á fæstum höggum fór Arnar Geir Hjartarson GSS eða 74 en Ásdís Guðmundsdóttir GHD var best stúlkna á 85 höggum. Úrslit eftir flokkum og myndir má sjá á síðu unglingastarfsins www.gss.blog.is