Glæsilegt afmælishóf

459 Comments

Glæsilegt afmælishóf GSS var haldið á Mælifelli síðastliðið laugardagskvöld. Skemmtu gestir sér konunglega undir góðri veislustjórn Gunnars Sandholts, sem samnýtti „gamlar kynningar frá Kórnum“ og golfsögur til að halda uppi góðri stemmingu. Forseti GSÍ Jón Ásgeir Eyjólfsson og gjaldkeri GSÍ, Eggert Ágúst Sverrisson mættu til leiks ásamt mökum sínum og heiðraði Jón Ásgeir af því tilefni nokkra félaga fyrir vel unnið starf. Gullmerki hlutu þeir. Magnús Rögnvaldsson, fyrir frumkvöðlastarf við uppbyggingu klúbbsins. Sigurjón Gestsson, fyrir störf að gróðursetningu á vellinum og Hjörtur Geirmundsson fyrir ríflega 20 ára starf innan stjórnar klúbbsins. Silfurmerki GSÍ hlutu þau Árný Árnadóttir fyrir að vera leiðandi í kvennagolfi, kynningarstarf og kennslu og Ásgeir Einarsson fyrir störf varðandi framtíðaruppbyggingu golfsvæðisins.

Í afmælinu var Steinar Skarphéðinsson gerður að heiðursfélaga GSS. Steinar var fremstur í hópi þeirra, sem unnu gríðarlegt starf við uppbyggingu golfvallarins að Hlíðarenda. Fyrir þau störf er honum þakkað með þessari viðurkenningu. Hélt Steinar ræðu þar sem hann lýsti fyrir  afmælisgestum þessum fyrstu árum að Hlíðarenda.

Á afmælinu voru jafnframt kynnt nöfn brauta er þau má sjá hér á síðunni. Endanleg ákvörðun um brautarnöfn bíður hins vegar aðalfundar.

Klúbbnum bárust góðar kveðjur og Stefán Pedersen gaf klúbbnum af þessu tilefni kvikmyndir frá bændaglímum á 9. áratug 20. aldar, sem mikill fengur er í.

Þá má geta þess að Rafn Ingi Rafnsson hlut sértök verðlaun og bikar, svokallaðan Háttvísibikar, sem veittur verður þeim kylfingi sem talinn er hafa sýnt af sér sanna íþróttamennsku og háttvísi. Bikarinn er farandbikar, sem verður veittur árlega.

Categories: Óflokkað