Íslandsmót golfklúbba 2021
Framundan eru Íslandsmót golfklúbba, sem áður voru nefnd sveitakeppnir.
Kvennalið GSS keppir í efstu deild á tveimur völlum 22.-24. júlí, Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Korpuvelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Árný Lilja Árnadóttir er liðsstjóri og valdi liðið sem er þannig skipað: Anna Karen Hjartardóttir, Dagbjört Rós Hermundsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Sigríður Elín Þórðardóttir, Sólborg Björg Hermundsdóttir, Telma Ösp Einarsdóttir og Una Karen Guðmundsdóttir.
Karlaliðið keppir í 2. deild og fer keppnin fram á velli Golfklúbbsins Kiðjabergs (GKB) og verður haldin dagana 26.-28.júlí. Hjörtur Geirmundsson liðsstjóri karlaliðs GSS er búinn að velja hópinn fyrir keppni karlaliðsins. Í liðinu eru: Arnar Geir Hjartarson, Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Hlynur Freyr Einarsson, Ingvi Þór Óskarsson og Jóhann Örn Bjarkason.
Leikfyrirkomulag er eins hjá báðum sveitum. Fyrirkomulagið er þannig að 6 leikmenn spila í hverri umferð, fjórir tvímenningsleikir og einn fjórmenningur.
Í 1. deild kvenna fellur liðið í 8. sæti í 2. deild, en eftir riðlakeppni keppa efstu 4 liðin um Íslandsmeistaratitil golfklúbba.
Átta sveitir eru í karladeildinni sem skipt er í tvo riðla. Leikið er við allar sveitir innan riðils fyrst og síðan er krossspil á milli riðla. Eitt lið fer upp í 1. deild og eitt lið fellur í 3.deild.
Hægt verður að fylgjast með mótunum á golf.is. en auðvitað er skemmtilegast að fylgjast með á staðnum. Stjórn GSS sendir sveitunum baráttukveðjur og vonar að liðin eigi ánægjulega daga á Íslandsmótunum.