Mikið um að vera að Hlíðarenda
Í gær var mikill fjöldi fólks á Hlíðarenda. Mikil þátttaka var í miðvikudagsmóti, þar sem Sigríður Elín Þórðardóttir spilaði best allra. Þá voru tvö námskeið í gangi og margt fleira. Veður var með allra besta móti og gaman að sjá ný andlit í klúbbnum. Þrír hópar barna og unglinga stunda nú æfingar hjá klúbbnum. Þau yngstu eru frá klukkan 8-10 í samvinnu við Sumar Tím Sveitarfélagsins Skagafjarðar, en hinn eiginlegi golfskóli er frá klukkan 10-15. Um 40 börn og unglingar stunda nú golf á Sauðárkróki.
Næstu helgi verður síðan eitt stærsta mót sumarsins og án efa það glæsilegasta þegar Kvennamót GSS verður haldið. Þegar hafa um 50 konur skráð sig til þátttöku, en ólíklegt er að á nokkru móti hér á landi séu veitt jafn mörg verðlaun.