GSS 50 ára 2020

Golfklúbbur Skagafjarðar verður 50 ára árið 2020.  Við viljum sýna okkar bestu hliðar á afmælisári og ýmislegt er á döfinni.  Meðal annars má nefna:

  • Aukin áhersla á barna- og unglingastarf. Á sumrin er æft virka daga í tveimur aldurflokkum og á veturna (janúar – apríl) er æft inni á Flötinni, inniaðstöðu GSS. Við munum halda þessu starfi áfram en viljum bæta í með aukinni aðkomu PGA þjálfara.

  • Útgáfa 50 ára afmælisrits.  Í afmælisritinu verða viðtöl við félagsmenn, saga klúbbsins verður rakin og logo styrktaraðila verða áberandi.  Ritinu verður dreift til félagsmanna, fyrirtækja og stofnana í Skagafirði, auk þess sem ritiið verður gert aðgengilegt rafrænt á heimasíðu okkar og vefsíðunni golf.is sem allir golfarar á Íslandi heimsækja reglulega. 

  • Öflugt mótahald.  Mótahald golfklúbbsins er blómlegt en GSS stóð fyrir 36 golfmótum árið 2019.  Flest þessara móta eru haldin í samstarfi við fyrirtæki og bera heiti fyrirtækisins sem styrkir mótið.  Á afmælisári ætlum við að halda áfram góðu mótastarfi og bæta um betur með veglegu afmælismóti.

  • Endurbætur á vellinum.  Góður golfvöllur er grunnurinn að góðu starfi.  Við erum stolt af vellinum okkar sem er í fremstu röð 9 holu golfvalla á Íslandi.  Við viljum vera í fremstu röð áfram en til þess þarfnast völlurinn stöðugs viðhalds og endurbóta.  Vallarnefnd GSS hefur sett fram metnaðarfulla áætlun um endurbætur vallarins til næstu ára þar sem margt mun koma til framkvæmd á afmælisári 2020.

  • Bætt aðstaða í golfskála.  Golfskálinn er vettvangur þar sem félagar koma saman að loknum góðum hring, þar sem börn og unglingar hafa aðstöðu fyrir og eftir æfingar, þar sem ferðagolfar setjast niður og slaka á í fögru umhverfi og síðast en ekki síst er golfskálinn nauðsynlegur fyrir mótahald.  Skálinn er farinn að láta á sjá og nauðsynlegt að sinna viðhaldi hans.  Þá er orðið löngu tímabært að endurnýja húsgögn.

  • Fjölgun félaga.  Nýliðanámskeið hafa verið vel heppnuð og leitt til fjölgunar félaga í klúbbnum.  Við viljum gera enn betur.  Stefnt er að sérstakri kynningu meðal nýbúa, eldri borgurum verður boðið upp á púttnámskeið og sérstakar kynningar verða í byggðakjörnum utan Sauðárkróks.  Nafni klúbbsins var breytt í nóvember 2019 og heitir hann nú Golfklúbbur Skagfirðinga og leggjum við með því áherslu á að klúbburinn er fyrir alla íbúa Skagafjarðar.

  • Nútímaþjálfun.  Golfþjálfun hefur tekið miklum framförum undanfarin ár.  Þar munar mest um framfarir í golfhermum sem gera kleift að æfa golf allt árið með nákvæmum upplýsingum um boltaflug og sveiflu.  Sífellt fleiri golfklúbbar hafa notfært sér tækniframfarirnar og fjárfest í fullkomnum golfhermum (Trackman).  Við viljum ekki vera eftirbátar öllu lengur og viljum fjárfesta í slíkum hermi.  Nýr golfhermir mun hafa í för með sér betri þjálfun fyrir börn, unglinga og fullorðna félagsmenn GSS.

Starf GSS er fjölþætt og fer vaxandi.  Við viljum nýta tækifærin sem eru fólgin í vaxandi vinsældum golfs á Íslandi, aukinni áherslu á heilsueflingu og hlýnandi veðurfari.  Við sjáum tækifæri til að efla starfsemi GSS á afmælisári með hjálp góðra fyrirtækja.  Við viljum einnig vinna með fyrirtækjum að því að brjóta upp starfið á starfsmannadögum eða skemmtidögum, s.s. með púttmóti eða golfmóti á Hlíðarendavelli eða í inniaðstöðu.  

Categories: Fréttir

Aðalfundur GSS 2019

Aðalfundur GSS 2019 var haldinn í golfskálanum á Hlíðarenda Sauðárkróki mánudaginn 25. nóvember.

Stjórn GSS árið 2020 verður óbreytt frá 2019:  Kristján Bjarni Halldórsson formaður, Halldór Halldórsson varaformaður, Kristján Eggert Jónasson gjaldkeri, Dagbjört Rós Hermundsdóttir ritari, Guðmundur Ágúst Guðmundsson (formaður vallarnefndar), Andri Þór Árnason (formaður mótanefndar) og Helga Jónína Guðmundsdóttir  (formaður unglinganefndar). Vallarstjóri er Guðmundur Þór Árnason. 

Á aðalfundinum var samþykkt lagabreyting um breytt nafn klúbbsins og heitir hann nú Golfklúbbur Skagafjarðar en hét áður Golfklúbbur Sauðárkróks. Áfram verður notuð þrístöfunin GSS. 

Í ársskýrslu 2019 kemur fram að mikil gróska er í starfinu, ekki síst í barna og unglingastarfi. 

Félagsmenn eru nú 167 talsins en voru 154 í lok árs 2018.  Nýliðanámskeið hafa notið vinsælda og eru nýir félagar ætíð velkomnir. Nefndir GSS 2020 eru vel mannaðar og var skemmtinefnd klúbbsins endurvakin.

GSS gegnir mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu og heilsueflandi samfélagi í Skagafirði. 

Hlíðarendavöllur er stolt félagsmanna, 29 hektarar að stærð innan vallarmarka og þar með stærsta íþróttasvæði Skagafjarðar.  Völlurinn er að jafnaði opinn yfir 150 daga á ári en golftímabilið hefur lengst með hlýnandi veðurfari. 

Starf GSS er allt árið um kring og færist í inniaðstöðu í Borgarflöt yfir köldustu mánuðina. Þar er m.a. golfhermir og púttaðstaða.  

Vallarnefndin hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun um viðhald og framkvæmdir á vellinum til næstu ára.  Það þarf talsverða vinnu við að halda vellinum í fremstu röð 9 holu golfvalla á Íslandi. 

Í ársreikningi kemur fram að rekstrarniðurstaða 2019 var neikvæð um 2,2 milljónir eða álíka og árið áður.  Lengt tímabil og aukin starfsemi felur í sér aukinn kostnað. Stjórn GSS vinnur að leiðum til að bæta rekstrarniðurstöðu komandi ára. 

Golfklúbburinn fékk góða gjöf frá dugmiklum eldri félagsmönnum sem reistu og gáfu klúbbnum framtíðaraðstöðu fyrir golfbíl.  Þá var samþykkt að GSS taki við eignum og skuldum hermafélagsins. 

Sigríður Elín Þórðardóttir hlaut háttvísiverðlaun GSÍ. Verðlaunin fær hún fyrir góða framkomu innan sem utan vallar, góða umgengni á vellinum og háttvísi í keppni. Hún spilaði m.a. með kvennaliði GSS í sumar í efstu deild á Íslandsmóti golfklúbba. 

 Í lok fundar var Stefán Pedersen kjörinn heiðursfélagi klúbbsins en hann hefur verið drjúgur við ljósmyndun í þágu klúbbsins í gegnum tíðina auk þess að sýna starfseminni lifandi áhuga og vera nánast hluti af vellinum.

Stjórn Golfklúbbs Skagafjarðar horfir björtum augum til ársins 2020 en þá verður klúbburinn 50 ára.  Framundan eru ýmsir viðburðir í tilefni afmælisins, svo sem afmælisferðir, útgáfa afmælisrits og afmælismót. 

Categories: Félagsstarf