Sveitakeppni drengja 15 ára og yngri

Sveit drengja 15 ára og yngri 2012 ásamt Thomasi þjálfara

Golfklúbbur Sauðárkróks sendi sveit vaskra drengja til keppni í Sveitakeppni Golfsambands Íslands í flokki 15 ára og yngri sem haldin var á Jaðarsvelli dagana 17.-19.ágúst s.l. Þeir sem skipuðu sveitina voru þeir Atli Freyr Rafnsson, Elvar Ingi Hjartarson, Hákon Ingi Rafnsson, Hlynur Freyr Einarsson, Jónas Már Kristjánsson og Pálmi Þórsson.  20 lið voru mætt til leiks í þessa keppni.  Fyrirkomulagið er þannig að fyrsta daginn er leikinn höggleikur sem ræður því í hvaða riðli sveitin keppir næstu tvo daga. Í hverri umferð eru 4 kylfingar sem spila en 2 hvíla.  Úrslitin úr höggleiknum voru þannig að Elvar Ingi lék á 78 höggum, Hlynur Freyr á 80 höggum og Jónas Már á 86 höggum og það voru þeirra skor sem töldu. Atli Freyr spilaði einnig í höggleiknum en hans skor taldi ekki, en í höggleiknum þá telja þrjú bestu skorin hjá hverri sveit. Eftir þennan hluta keppninnar vorum við í 8-9 sæti keppninnar en 4. maður sveitarinnar sem var jöfn okkur var á betra skori og því varð niðurstaðan sú að sveitin lenti í 9.sæti og því í C riðli, en 4 sveitir eru í hverjum riðli. Á laugardegi og sunnudegi var síðan fyrirkomulagið holukeppni þar sem leiknir eru 3 leikir í hverri umferð þ.e. tveir leikmenn úr hverri sveit spila svokallaðan fjórmenning og hinir tveir spila sinn hvorn tvímenningsleikinn.  Byrjað var á að spila við Nesklúbbinn og þar unnu Hlynur Freyr og Pálmi sinn leik í fjórmenningsleiknum en báðir tvímenningsleikirnir hjá Elvari Inga og Jónasi Má töpuðust.  Seinni leikurinn á laugardeginum var á móti Golfklúbbi Hveragerðis og þar sigrðaði Elvar Ingi í sínum leik en Atli Freyr tapaði í hinum tvímenningsleiknum, þá tapaðist einnig fjórmenningsleikurinn hjá Hlyni Frey og Hákoni Inga.  Báðir leikirnir þennan dag töpuðust því með einum vinningi gegn tveimur. Á sunnudeginum voru einnig spilaðar tvær umferðir. Byrjað var á því að spila við nágranna okkar á Dalvík og Ólafsfirði sem voru með sameiginlega sveit.  Þessi leikur var klárlega sá besti af okkar hálfu í keppninni enda þekkjast kylfingar þessara sveita mjög vel.  Jónas Már og Atli Freyr spiluðu fjórmenninginn, en Elvar Ingi og Hlynur Freyr spiluðu sinn hvorn tvímenningsleikinn.  Allar viðureignir í þessum leik voru mjög spennandi en að lokum var landað sigri í öllum leikjunum. Seinni leikurinn á sunnudeginum var gegn b sveit Golfklúbbs Akureyrar.  Þar léku í fjórmenningi þeir Atli Freyr og Pálmi, en í tvímenningnum léku þeir Hlynur Freyr og Elvar Ingi.  Í þessum leik var Hlynur Freyr sá eini sem landaði sigri en hinir leikirnir töpuðust.  Sveit GSS varð því í 14. sæti í þessari keppni.  Það var virkilega gaman að fylgjast með þessari keppni og allir keppendur voru að spila mjög vel og það er mikil sprenging í unglingagolfi um land allt.

Hægt er að sjá myndir úr keppninni á gss.blog.is

Categories: Óflokkað