Category: Óflokkað

Viðtal við heiðursfélaga

Sigurjón Gestsson, heiðursfélagi GSS

Sigurjón Gestsson var kjörinn heiðursfélagi Golfklúbbs Skagafjarðar á aðalfundi félagsins 30. nóvember 2020, á 50 ára afmæli GSS. Á heiðursskjali sem honum var afhent stendur: „Golfklúbbur Skagafjarðar samþykkti á aðalfundi 2020 að gera þig Sigurjón Gestsson að heiðursfélaga sínum. Með virðingarvotti þakkar Golfklúbbur Skagafjarðar þér fyrir áratuga sjálfboðavinnu í þágu klúbbsins.  Við þökkum þér fyrir að bæta og fegra Hlíðarendavöll með gróðursetningu og umhirðu gróðursins. Trjágróðurinn er mikilvægur hluti af vellinum, skýlir okkur fyrir vindi og skapar fallegt umhverfi til golfiðkunar og annarrar útivistar.“

Sigurjón er fæddur í Reykjavík árið 1944. Hann er giftur Svanborgu Guðjónsdóttur og eiga þau tvö uppkomin börn sem búsett eru á Sauðárkróki. Foreldrar Sigurjóns fæddust í Reykjavík og hann á tvær systur. Áhugamál Sigurjóns á yngri árum voru allt milli himins og og jarðar svo sem útivera, landbúnaðarstörf og hestamennska.

Formaður GSS brá sér í hlutverk blaðamanns og spurði Sigurjón nokkurra spurninga, fyrst um það hvenær hann byrjaði að spila golf.  „Árið 1986 hætti ég sem sláturhússtjóri hjá KS eftir 12 ára starf. Þá hætti ég einnig í hestamennsku sem ég hafði stundað óslitið í 25 ár. Strákurinn minn var þá byrjaður í golfi og við hjónin ákváðum að prófa og erum enn að.“

Séð frá teig á braut 6. Mynd: Hjalti Árnason.

Krókódíll á Florída

Hversu oft spila þú núna? „Við reynum að fara eins oft og við getum í golf og förum aldrei neitt án þess að settin séu með í för. Sem betur fer eigum við samt fleiri áhugamál og við sinnum skógrækt, veiði og fleiru. Við eigum líka draumareit í Hegranesinu, þar sem við unum okkur vel. Þannig að þó að við vildum fara daglega í golf þá er það nú kannski ekki alveg þannig. Við förum líklega 3-4 sinnum í viku á völlinn“ segir Sigurjón.

Eru einhverjar sérstaklega eftirminnilegar stundir við golfiðkun? „Við hjónin höfum ferðast mikið með golfsettin. Við förum reglulega erlendis ásamt vinum og ættingjum til þess eins að leika okkur í golfi. Á Florida í einni slíkri ferð lenti ég í því að yfirslá flöt á par 3 holu. Boltinn fór yfir runna og rúllaði niður að vatni þar dálítið fyrir aftan.  Þegar að ég hafði klofast yfir runnann sé ég boltann. Mér sýndist hann liggi upp við dökkleitan trjádrumb. Ég gekk ákveðinn að boltanum en þegar ég var kominn mjög nærri reisti drumburinn sig upp, opnaði skoltinn og hvæsti á mig. Þetta var þá ca. þriggja metra langur aligator“

Óteljandi plöntur

Hvernig kom það til að þú fórst að gróðursetja á Hlíðarendavelli og segðu aðeins frá því starfi.
„Ég hef alltaf haft áhuga á skógrækt. Þegar ég byrjaði í golfi þá fannst mér völlurinn vera ansi berangurslegur, enda ekki svo gamall og víða var lítill gróður. Ég sá í hendi mér að það væri auðvelt að gera völlinn fallegri og auka skjólið með auknum gróðri. Ég byrjaði á því að sækja mér stikklingaefnin niður á hauga og fyrstu skjólbeltin eru gerð úr þeim. Síðan bætti ég fleiri tegundum við, birki, lerki, furu, elri og öspum.  Ég safnaði birkifræi og sáði víða um völlinn. Svo fengum við leyfi frá garðyrkjufræðing bæjarins til að sækja trjáplöntur í skógarhlíðina því þar hafði verið plantað mjög þétt. Naut ég aðstoðar vallarstarfsmanna, sér í lagi þeirra yngstu sem komu úr unglingavinnunni hvert sumar. Ég get með engu móti giskað á hve margar plöntur eru á vellinum.  Nú er farið að bera á sjálfsáningu plantna, einkum birki og stafafuru. Þegar Muggur tók við sem vallarstjóri varð ég strax var við áhuga hans á að auka enn frekar við trjárækt á vellinum. Hann hefur unnið vel að þessu með mér. Einnig má geta þess að Rúnar Vífilsson sýndi þessu mikinn áhuga og kom hann til miklu magni af öspum sem við Muggur, ásamt Rúnari, höfum gróðursett.“

Framtíðarsýn

Að lokum, hvernig sérð þú framtíð vallarins fyrir þér? „Ég vonast til að brautum verði fjölgað eftir því sem klúbburinn ræður við. Einnig vonast ég til þess að sú alúð og sá metnaður sem lagður hefur verið í hirðingu vallarins, verði áfram aðalsmerki Hlíðarendavallar“ segri Sigurjón að lokum. Þess má geta að Sigurjón er enn að upp á Hlíðarendavelli og rakst formaðurinn nokkrum sinnum á hann og félaga í haust við grisjun. 

Categories: Óflokkað