Kærar þakkir félagsmenn fyrir að gefa vellinum tíma til að jafna sig. Hlíðarendavöllur er viðkvæmur núna en allur að koma til. Stefnt er að opnun inn á sumarflatir seinni partinn í næstu viku. Það er þó háð því að veðrið leiki við okkur. Hugsanlega getur 9. flötin þurft að bíða ögn lengur. Á sama tíma er gert ráð fyrir að opna boltavél. Boltar verða sótthreinsaðir.
Æfingar barna og unglinga byrja senn. Æfingar fyrir eldri hóp (5. bekk og eldri) byrja í næstu viku. Ákveðið hefur verið að bíða með æfingar fyrir yngri hóp um sinn og skoða málin þegar líður á maímánuð.
Afmælisritið er í smíðum. Þar eru viðtöl, greinar, ágrip af sögu GSS o.fl. Í ritinu verður a.m.k ein myndasíða og væri gaman að fá myndir frá félagsmönnum. Sendið til formadur@gss.is Afmæliskveðjur frá fyrirtækjum verða vonandi á sínum stað og þið megið gjarnan benda forsvarsmönnum fyrirtækja/stofnana ykkar á að birta merki (logo) í afmælisritinu. Þeir geta haft samband með tölvupósti til formadur@gss.is eða í síma 6914999 (Kristján).
Nýliðar streyma inn í klúbbinn og hafa nokkrir verið kynntir á Facebook síðu klúbbsins. Þær kynningar munu halda áfram. Þið megið endilega vera dugleg að láta ættingja, vinnufélaga og vini vita af nýliðanámskeiði sem verður í júní. Árný Lilja og Atli Freyr munu sjá um kennslu á nýliðanámskeiðinu. Dagbjört Rós sér um að bóka á námskeiðið, netfang hennar er dagbjort79@live.com
Nokkrir félagsmenn verða á ferð og flugi um næstu helgi og taka þátt í móti í Mosfellsbæ. Verður gaman að fylgjast með árangri þeirra.
Hótel víða um land eru að kynna tilboð sín þessa dagana og þá gefst tækifæri að nýta vinavallasamningana.
Minni loks á félagsgjöldin. Upplýsingar um gjöldin eru hér á síðunni og gjaldkeri okkar, Kristján Jónasson (gjaldkeri@gss.is) veitir allar nánari upplýsingar.
Ferðamennska hefur farið vaxandi á Íslandi undanfarin ár en nú hefur veira sett strik í reikninginn. Líklegt má telja að erlendir ferðamenn verði fátíðir gestir í sumar. Aftur á móti binda aðilar í ferðaþjónustu vonir við að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands. Fegurð Skagafjarðar heillar hvern þann sem sækir fjörðinn heim. Í Skagafirði stendur ferðamönnum margt til boða. Hér er náttúrufegurð og fjölbreytt líf manna og dýra sem njóta má jafnt sumar sem vetur. Skagfirðingar eru þekktir fyrir fjölbreytt menningarlíf og sagan drýpur af hverju strái. Veitingastaðir eru góðir og gistimöguleikar margir og spennandi.
Tækifæri
Mikilvægt er að ferðamönnum standi fjölbreytt afþreying til boða. Íþróttatengd ferðamennska fer vaxandi og þar
eru tækifæri sem nýta má betur. Í Skagafirði
er mikil áhersla á íþróttir, enda erum við heilsueflandi samfélag þar sem lögð
er áhersla á hreyfingu fólks á öllum aldri.
Golf er næst vinsælust íþrótta á Íslandi samkvæmt iðkendatölum frá ÍSÍ, knattspyrnan
trónir á toppnum. Í aldurshópnum 30+
hefur golfið þó vinninginn. Kylfingar taka með sér golfsettin þegar ferðast er
um landið. Sumir skipuleggja ferðalagið út frá golfvöllum. Í því er fólgið tækifæri fyrir golfklúbbinn,
sveitarfélagið og aðra aðila í ferðaþjónustu í Skagafirði. Aðstæður núna eru
sérstakar og líklegt að kylfingar verði óvenju duglegir að ferðast innanlands.
Paradís á Nöfunum
Hlíðarendavöllur er Paradís á Nöfunum. Útsýni
er inn og út fjörðinn með fagra fjallasýn. Dýrahljóð setja sinn ljóma á völlinn. Fuglarnir syngja, en kannski ekki alltaf þeir
fuglar sem kylfingar vilja að syngi. Ég
hef nú ekki hitt hanann sem galar reglulega þegar ég er að spila, en mikið
óskaplega þykir mér vænt um hann.
Völlurinn er þekktur fyrir góða umhirðu og skemmtilegar brautir. Kylfingar bera honum vel söguna. Völlurinn er
líka vinsæll meðal útivistarfólks, í gönguferðum jafnt sumar sem vetur. Golfskálinn er félagsaðstaða GSS og afdrep
fyrir börn og unglinga milli æfinga. Í
skálanum koma kylfingar saman þegar mót eru haldin. Skálinn er farinn að láta á sjá og kominn
tími á endurbætur. Ýmsir hafa rætt að
skálann megi nýta betur, einkum að vetrarlagi.
Draumur minn er sá að sveitarfélagið reisi fjölnota hús á Hlíðarenda sem
nýta má allt árið fyrir ýmis félög og starfsemi.
Skagafjörður – áfangastaður kylfinga Við í Golfklúbbi Skagafjarðar (GSS) leggjum okkar af mörkum til að
fjölga ferðamönnum í Skagafirði. Við
bjóðum upp á fjölda móta fyrir börn og fullorðna þar sem við fáum gesti víðs
vegar að. Konur í GSS standa fyrir
árlegu golfmóti sem nýtur mikilla vinsælda.
Golfskálinn er opinn júní til ágúst og völlinn hefur verið hægt að spila
í 5-6 mánuði á ári undanfarin ár. Í
vetur hefur GSS eignast nýja vinaklúbba um land allt, en félagsmenn þeirra fá
afslátt þegar þeir spila hjá okkur og gagnkvæmt. Við gerum okkur vonir um að kylfingar
vinaklúbba muni heimsækja Skagafjörð í auknum mæli á komandi árum til að glíma
við völlinn fagra og njóta alls hins góða sem Skagafjörður hefur upp á að
bjóða. Skagafjörður er áfangastaður
kylfinga.
50 ára afmæli – hlýðum Víði
GSS fagnar 50 ára afmæli á árinu. Við munum að sjálfsögðu halda upp á það með
ýmsum hætti, s.s. afmælisriti, afmælismóti og afmælishófi, þó þannig að allir
hlýði Víði (sem er liðtækur kylfingur). Við höfum áhuga á að fjölga í góðum
hópi og bjóðum nýliða velkomna. Fram
undan er nýliðanámskeið sem hefst væntanlega í byrjun júní og verður auglýst í
Sjónhorni. Nánari upplýsingar veitir
formaður nýliðanefndar, Dagbjört Rós (dagbjort79@live.com).
Starf GSS byggist að miklu leyti á
sjálfboðavinnu. Við njótum velvilja
sveitarfélagsins og fyrirtækja í Skagafirði. Fyrir það þökkum við kærlega. Án
stuðnings fyrirtækja og sjálfboðavinnu félagsmanna væri starfið óhugsandi.
Þegar þetta er skrifað er útlit
fyrir að golf megi stunda með nokkuð hefðbundnum hætti í sumar. Við í GSS erum
því bjartsýn og hlökkum til starfsins.